Leikskólinn Brákarborg

BrákarborgBrákarborg er einn af elstu leikskólunum í Reykjavík og hóf starfsemi árið 1952. Viðbygging við leikskólann var tekin í notkun í febrúar 1995. Leikskólinn er í grónu hverfi milli Skipasunds og Sæviðarsunds og við göngustíginn Brákarsund. Stutt er í Laugardalinn sem hefur upp á margt að bjóða og nýtist vel í leikskólastarfinu allan ársins hring. 51 barn dvelur í leikskólanum og er þeim skipt á þrjár deildir eftir aldri. Deildirnar heita Dvergheimar, Álfheimar og Jötunheimar.

Markmið skólans er að láta frá sér sjálfstæða og örugga einstaklinga sem þora að taka eigin ákvarðanir og standa við þær, jafnframt því að virða skoðanir annarra og taka tillit til þeirra. Lögð er áhersla á að börnin fari úr leikskólanum með góðar minningar.

Mikilvægt er að skapa gott andrúmsloft fyrir frjálsa leikinn. Það er gert með því að gefa honum góðan tíma. Frjáls leikur fer fram í svokölluðu flæði þar sem börnin taka hvert fyrir sig ákvörðun um hvaða svæði þau kjósa og hvernig leik. Auk frjálsa leikskins er börnunum á hverri deild skipt í hópa sem taka þátt í markvissum kubbaleik. Hver hópur fer einu sinni í viku með kennara sínum þar sem leikurinn fer fram á eigin forsendum barnanna.

Leikskólinn Brákarborg er við Brákarsund